Ég er rafveituvirki

Framtíðin er full af tækifærum

Rafveituvirki

Rafveituvirki starfar við uppsetningu, viðhald og viðgerðir lagna og búnaðar til flutnings og dreifingar raforku frá framleiðslu til notkunar. Hann starfar við lagningu flutnings- og dreifikerfa og eftirlit með þeim í samræmi við gildandi reglugerðir og staðla. Hann hefur sérhæfða þekkingu í lestri hönnunarteikninga og verklýsinga fyrir flutnings- og dreifikerfi og getur magntekið og unnið verkáætlanir eftir þeim.

Rafveituvirki vinnur við háspennuvirki og lagningu háspennulagna bæði í lofti og jörð og þekkir vel til burðarþols og búnaðar er varðar lagningu þeirra. Hann notar viðeigandi mælitæki við störf sín og framkvæmir einfaldar bilanaleitir og viðgerðir í rafveitukerfum. Hann þekkir til rafbúnaðar, rafvéla, iðntölvustýringa og stýribúnaða sem snerta rafveitukerfi. Rafveituvirki býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt og getur leiðbeint öðrum. Hann þekkir til samskipta við landeigendur og umhverfismála.

Meðalnámstími er fjögur ár að meðtöldu grunnnámi rafiðna og starfsþjálfun undir leiðsögn meistara. Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni og inngöngu í meistaranám.

Rafveituvirki er lögverndað starfsheiti.