Ég er rafvirki

Framtíðin er full af tækifærum

Rafvirki

Rafvirki starfar við uppsetningu, viðhald, viðgerðir og eftirlit með raftækjum, rafkerfum og rafbúnaði til vinnslu og dreifingar á raforku. Hann vinnur á verkstæðum, í nýbyggingum, farartækjum á sjó og landi, heild- og raftækjaverslunum, orkufyrirtækjum, iðnfyrirtækjum og iðjuverum.

Marga rafvirkja er líka að finna í fjarskipta, nýsköpunar og tæknifyrirtækjum af ýmsum stærðum og gerðum. Þar vinna rafvirkjar fjölbreytta vinnu við tæknilausnir, forritun og þróun á búnaði. 

Rafvirki setur upp og hefur eftirlit með raflögnum og rafbúnaði í samræmi við gildandi reglugerðir og staðla í byggingum, skipum og bátum. Hann hefur sérhæfða þekkingu á raflagnateikningum og getur magntekið og unnið verkáætlanir eftir þeim. Rafvirki notar viðeigandi mælitæki við störf sín og framkvæmir bilanaleit og viðgerðir á rafbúnaði. Hann þekkir vel til mismunandi raflagnaefnis og til hvers konar raftækja, rafvéla, iðntölvustýringa, stýribúnaðar og forritanlegra raflagnakerfa. Rafvirki býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt og getur leiðbeint öðrum.

Meðalnámstími er fjögur ár. Tvær námsleiðir standa til boða, verknámsleið í skóla eða samningsbundið iðnnám hjá meistara. Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni og inngöngu í meistaranám.

Rafvirki er lögverndað starfsheiti.